Forréttur: Ofnbakaður hvítlaukur

Óskilgreindar uppskriftir

Afskaplega bragðgóður og heillandi forréttur. Borinn fram heitur með ristuðum brauðbitum og sýrðum rjóma eða hreinni jógúrt.

Efni:
Miðað við 4-6:

2-3 heilir hvítlaukar, helst ferskir
(seldir í lausu) með stórum rifjum.

Ristað brauð, sneiðarnar skornar í
þríhyrnur.

Sýrður rjómi eða óbragðbætt jógúrt.

Meðhöndlun
Hvíta þurra hýðið hreinsað sem mest utan
af hvítlaukunum. Hýðið næst rifjunum ekki
snert. Laukarnir hafðir heilir (ekki tæta
þá sundur í rif).

Laukarnir settir í leirform með loki,
eldfast mót með loki eða búið til form úr
tvöföldum álpappír sem loka má með því að
bretta upp á kantana - gætið þess þá að
þrengja ekki um of að laukunum.

Dreypið ögn af olíu yfir laukana, svolitlu
salti og ögn af nýmuldum pipar.

Bakið í ofni við venjulegan bökunarhita
í um það bil 30 mínútur.

Gott er að dreypa ögn meira af olíu og
strá örlitlu salti yfir laukana á miðjum
bökunartíma.

Borið fram á diski. Laukarnir líta út
bakaðir eins og falleg blóm.

Neytendur taka brauðbita, smyrja hann með
sýrðum rjóma eða óbragðbættri jógúrt.
Taka því næst eitt til tvö hvítlauksrif
og kreista úr þeim ofan á brauðið. Þá
á laukurinn í rifinu að vera meyr og
kremkenndur.

Og svo er bara að borða þetta með góðri
lyst meðan það endist og drekka eitthvað
bragðgott með.


Athugið:

Fyrir þá sem haldnir eru þeirri trú að
þeir angi af hvítlaukslykt eftir að hafa
snætt hann eru til ýmis ráð.

1) Að tyggja anisfræ að máltíð lokinni.

2) Að tyggja fræ úr heilum kardimommum
að máltíð lokinni.

3) Að láta eins og ekkert sé - og það er
best því það er ekkert nema ímyndunin sem
veldur hvítlaukslykt :-)

Sendandi: Sverrir Páll <svp@ismennt.is> (02/05/1995)


UppskriftaWWWefurinn - www.eldhus.is
Ingimar og Siggi