Pönnusteiktur lax m. fersku salati

Fiskréttir

Ferskur. léttur og sumarlegur réttur

Efni:
þykkar laxasteikur
sítrónuolía
maldon salt
svartur pipar ef vill
olía af sólþurrkuðum tómötum til steikingar
epli og perur
niðurrifinn parmesan

Ferskt salat
blandað salat eftir smekk
balsamik ristuð paprika
agúrka
kirsuberjatómatar eða aðrir litlir tómatar
sólþurrkaðir tómatar
salthnetur, furuhnetur og graskersfræ
niðurrifinn parmesan

Jógúrtsósa
grísk jógúrt
lime safi
Þessu er blandað saman - lime safi eftir smekk en líka gott að rífa börkinn út í - það dregur úr sýru í sósunni. Gott að gera bæði.

Meðhöndlun
Skerið laxinn í ca þumlungsþykkar steikur. Hitið pönnuna mjög vel og hellið ca 1 msk af olíunni á pönnuna. Steikið laxinn við skarpan hita í 5 mín á hvorri hlið (á að vera bleikur og mjúkur í miðjunni - fer eftir þykkt stykkjanna) - hellið þá sítrónuolíu yfir laxinn á pönnunni og kryddið eftir smekk með maldonsalti. Færið yfir á fat.
Steikið niðurskornar perur og epli (skorin endilöng) á sömu pönnu, þar til ávextirnir hafa tekið fallegan lit. Saltið létt. Leggið yfir laxastykkin og rífið parmesanost gróft yfir.

Ferskt salat
Dreifið fersku salati á smart disk eða fat. Raðið niðurskornum tómötum og agúrkustrimlum yfir salatið.
Rífið parmesanost gróft yfir.

Balsamik ristuð paprika
Skerið rauða papriku í strimla og ristið á heitri pönnu (ekki með olíu ef pannan er viðloðunafrí). Þegar hún er farin að ristast vel er dass af balsamik ediki bætt á pönnuna og maldon salti. Látið sjóða niður.
Ef paprikan er kæld er hægt að setja hana yfir salatið annars er hún höfð sem meðlæti.
(þetta er líka hægt að gera við gulrætur!)

Salthnetur, furuhnetur og graskersfræ eru ristuð á heitri pönnu. Hef þetta með í skál fyrir þá sem vilja en líka hægt að setja þetta út á salatið.

Verði ykkur að góðu!

Sendandi: Elsa <elsareimars@gmail.com> (23/06/2009)


UppskriftaWWWefurinn - www.eldhus.is
Ingimar og Siggi