Plokkfiskur

Fiskréttir

ofsalega góður

Efni:
Plokkfiskur

350 g fiskur (t.d. ýsa eða þorskur), soðinn eða bakaður
salt
350 g kartöflur
½ laukur
1½ msk smjör
2 msk hveiti
250 ml mjólk
(hvítur) pipar

Meðhöndlun
Settu fiskinn í pott ásamt svolitlu salti og köldu vatni svo rétt fljóti yfir, hitaðu að suðu, slökktu undir pottinum og láttu fiskinn bíða í soðinu í 5-6 mínútur. Taktu hann þá upp úr. Sjóddu kartöflurnar þar til þær eru meyrar, flysjaðu þær og skerðu þær í bita.

Afhýddu laukinn og skerðu hann frekar smátt. Bræddu smjörið í potti, settu laukinn út í og láttu hann krauma í um 5 mínútur við fremur vægan hita án þess að brúnast.

Stráðu hveitinu yfir og hrærðu vel. Láttu krauma í um 1 mínútu. Hækkaðu þá hitann, helltu mjólkinni saman við smátt og smátt og hrærðu vel á meðan. Lækkaðu hitann aftur þegar sýður og láttu sósuna malla í um 5 mínútur; hrærðu oft svo hún brenni síður við (bættu við svolítilli mjólk ef hún er mjög þykk). Taktu hana svo af hitanum.

Settu fiskinn út í (gott að stappa hann dálítið með gaffli fyrst) og hrærðu rösklega. Settu svo kartöflurnar út í og hrærðu. Bættu við ögn meiri mjólk ef plokkfiskurinn er mjög þykkur.

Kryddaðu plokkfiskinn með töluvert miklum pipar (helst hvítum, svona upp á útlitið) og salti eftir smekk – smakkaðu þig bara áfram. Sumir vilja bragðbæta hann með örlitlu sinnepi eða karrídufti, hvítlauk eða öðru, og svo er oft stráð söxuðum graslauk eða vorlauk yfir.

En annars er það bara rúgbrauð og smjör með.

Sendandi: Linda (14/07/2010)


UppskriftaWWWefurinn - www.eldhus.is
Ingimar og Siggi